Góðan dag. Helgin var einstaklega skemmtileg svo ekki sé meira sagt.

Á föstudag fórum við ásamt Matthíasi Páli suður til Keflavíkur í matarboð til Ragga og Mundu. Maturinn var góður og sérstaklega aðalrétturinn sem var einhvers konar mexíkanskur kjúklingapottréttur. Verulega gott. Steini og Guðrún voru svo í beinu símasambandi við dætur sínar í Háholtinu, en þær voru einar heima. Pörupiltar voru víst að sparka utan íog gámaöryggisþjónusta Steina og Ragga sýndi mátt sinn og meginn.

Á laugardaginn fór ég svo á landsleikinn. My god hvað það var gaman og ótrúlegt að maður væri svekktur með jafntefli við Þjóðverja. Það sem var einnig áhugavert var íslendingurinn fyrir aftan mig sem rifjaði upp framhaldsskólaþýskuna og kom henni digurbarkalega yfir á völlinn. Ég er ekki í vafa um að þetta hafi hjálpað okkur mikið í leiknum enda var maðurinn með eindæmum fær í þýskunni. Svo af og til brá hann fyrir sér ensku og þá kættist nú mannskapurinn og horfðu í undran á þennan fjöltyngda einstakling. Er það von okkar að hann verði á vellinum í Þýskalandi til að klára verkefnið.

Á sunnudag fór ég með Alexander og Dísu í Breiðholtslaug og við skemmtum okkur konunglega í rennibrautunum. Ein skemmtilegasta rennibrautin í boði Reykjavíkurborgar. Sólrún fór svo með krílin í bíó á Ástrík og Kleópötru (fengum frímiða hjá DV og fá þeir þakkir fyrir). Á meðan ég man. Mannanafnanefnd hefur samþykkt nafnið Ástríkur.

Fín helgi.

Ummæli

Vinsælar færslur